*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Fólk 3. maí 2015 20:35

24 ár hjá Háskólanum

Jón Atli Benediktsson, nýkjörinn rektor, á langan feril í akademíunni að baki og utan vinnu sinnir hann áhuga sínum á tónlist og knattspyrnu af kappi.

Kári Finnsson
Aðsend mynd

Jón Atli Benediktsson, nýkjörinn rektor Háskóla Íslands, er enginn nýgræðingur í akademíunni þar sem hann hefur starfað hjá Háskólanum frá árinu 1991. Jón Atli er rafmagnsverkfræðingur að mennt en hann lauk B.S. prófi frá Háskóla Íslands og svo doktorsprófi frá Purdue University í Indiana í Bandaríkjunum árið 1990. Ári síðar hóf hann störf sem lektor hjá Háskóla Íslands, varð prófessor þar í rafmagns- og tölvunarverkfræði árið 1996 og frá árinu 2009 hefur hann starfað sem aðstoðarrektor vísinda og kennslu. Ásamt því hefur hann verið gestaprófessor við háskóla á Ítalíu, í Bretlandi og Kína, komið að stofnun sprotafyrirtækis og verið stjórnarformaður orkufyrirtækisins Metans.

Miklir möguleikar í akademíunni

Spurður að því hvað hefur haldið honum svona lengi hjá háskólanum segir Jón Atli að fjölbreytni starfsumhverfisins heilli hann einna mest. „Ég hef mjög gaman af starfinu í Háskólanum, kennslu rannsóknum og stjórnun – allir þessir þættir hafa höfðað til mín. Þetta er líka þannig starf að það býður upp á svo marga möguleika. Maður getur verið að sinna rannsóknum á þeim sviðum sem tengjast því sem maður er að gera sem manni finnst vera spennandi. Ég hef verið að vinna mikið með erlendum stofnunum og fyrirtækjum og mér hefur fundist gaman að vinna með ungu fólki líka,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.