Hin svokallaða 24 ára regla verður afnumin úr útlendingalögum, samkvæmt frumvarpi til breytinga á lögunum sem er til meðferðar í þingflokkum stjórnarflokkanna.

Frumvarpið er flutt af dómsmálaráðherra og verður dreift á Alþingi á allra næstu dögum. Samkvæmt 13. gr. útlendingalaga þarf erlendur ríkisborgari í hjúskap með íslenskum ríkisborgara að vera orðinn 24 ára til að öðlast dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins.

Það ákvæði var samþykkt á Alþingi árið 2004 en var mjög umdeilt. Nú er hins vegar lagt til að það verði afnumið í ljósi þess hve erfiðlega hafi gengið að fylgja því eftir í framkvæmd.