Skráð atvinnuleysi í febrúar var 2,4% og því óbreytt frá því í janúarmánuði samkvæmt Vinnumálastofnun . Ef litið er til sama mánuðar ársins á undan fækkaði atvinnulausum að meðaltali um 784 milli ára. Í febrúar 2017 mældist atvinnuleysi hálfu prósentustigi hærra eða 2,9%. Þó ber að geta þess að vegna verkfalls sjómanna í fyrra var atvinnuleysi mikið á þeim tíma.

Atvinnuleysi minnkaði í flestum landshlutum, nema á Suðurnesjum þar sem það jókst um 0,2 prósentustig og á Vesturlandi þar sem aukning var 0,1 prósentustig.

Atvinnuleysi jókst um 0,1 prósentustig meðal karla en engin aukning var meðal kvenna og atvinnuleysi 2,4% hjá körlum og 2,5% meðal kvenna.

Í heildina voru 938 milljónir greiddar í atvinnuleysistryggingar í febrúar en þar af voru 846 milljónir vegna hefðbundinna atvinnuleysistrygginga. Þá voru greiddar 64 milljónir vegna tekjutengdra trygginga og 28 milljónir vegna barnadagapeninga.