Fimm stærstu útgerðarfyrirtækin samkvæmt kvótahlutdeild högnuðust til samans um rúmlega 24 milljarða króna árið 2015. Um er að ræða tæplega 20% hækkun frá fyrra ári. Um 27,7% af samanlögðum hagnaði ársins 2014 voru greidd í arð, og ef fallist verður á arðgreiðslutillögur árins 2015 mun hlutfallið lækka í 22,5%. Innlend afkoma var fremur slök, meðal annars vegna mikilla kostnaðarhækkana og ástands á uppsjávarmörkuðum, en erlend starfsemi farnaðist vel árið 2015. Fyrirtækin einblína á greiðslu lána og fjárfestingar.

Allar upplýsingar voru fengnar úr samstæðureikningum, sem allir eru gefnir upp í evrum nema fyrir FISK-Seafood ehf. Upphæðir  voru reiknaðar yfir í krónur miðað við meðalgengi á viðkomandi ári. Niðurstöður efnahagsreiknings árið 2015 voru reiknaðar á lokagengi ársins.

Samherji Íslands ehf.

Samherji hagnaðist um 13,9 milljarða íslenskra króna árið 2015 miðað við 11,2 milljarða árið áður. Rekstrartekjur fyrirtækisins hækkuðu og voru 83,8 milljarðar, á meðan rekstrarhagnaður fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) hækkaði í 19,9 milljarða. Arður til hluthafa fyrir árið 2014 nam 1,4 milljörðum, og er lagt til að sama krónuupphæð verði greidd í arð fyrir árið 2015.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir bætta afkomu á árinu 2015 skýrast af innri og ytri þáttum. „Árið var farsælt og afkoman ein sú besta frá upphafi. Gott fólk með góðar hugmyndir og vinnusemi býr til góðan árangur. Af ytri þáttum sem hjálpuðu á síðasta ári var það helst hátt verð á þorski og góð sala á þorskafurðum.“

Eignir samstæðunnar voru samtals um 119 milljarðar króna. Þar af voru skuldir 35,9 milljarðar og eigið fé um 83,1 milljarður. Eiginfjárhlutfall var 69,8% í árslok 2015 og hlutfall nettóskulda og EBITDA um –0,13 á árinu. Breyting í handbæru fé var jákvæð á árinu 2015 um 13 milljarða, en sjóðstreymið var nýtt til afborgana langtímaskulda og í nýjar fjárfestingar. Fjárfestingar ársins námu 8,2 milljörðum, en fjárfest var í nýsmíði fiskskipa á Íslandi og erlendis, sem og uppbyggingu fiskvinnslunnar á Akureyri.

HB Grandi hf.

HB Grandi hagnaðist um 6,5 milljarða króna árið 2015 borið saman við 5,6 milljarða árið áður. Rekstrartekjur námu rétt undir 32,9 milljörðum á meðan EBITDA hækkaði í 7,9 milljarða. Ágæt loðnuvertíð, hækkun á sjófrystum afurðum og lægra olíuverð stuðluðu að bættri afkomu. Arður til hluthafa fyrir árið 2014 nam 2,7 milljörðum króna. Lagt er til að sama upphæð verði greidd í arð fyrir árið 2015.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .