Alls fengust tæplega 819 milljón krónur upp í kröfur við gjaldþrotaskipti Fjárfestingafélagsins Grettis ehf. Lýstar kröfur voru aftur á móti 24 milljarðar króna og 4,5 milljón betur. Því fengust rétt rúm 3,4% upp í lýstar kröfur. Þetta kemur fram í auglýsingu frá skiptastjórum sem birt var í Lögbirtingablaðinu í dag.

Grettir fór í þrot þann 4. maí 2009 og voru þeir Elvar Örn Unnsteinsson og Magnús Guðlaugsson skipaðir skiptastjórar. Skiptum lauk síðastliðinn fimmtudag með úthlutunargerð. Allar samþykktar kröfur voru almennar kröfur og fékkst ekkert upp í eftirstæðar kröfur.

Slitastjórn Landsbankans stefndi meðal annars fyrrverandi stjórnendum bankans fyrir að hafa ekki gengið að veðum fyrir yfir 40 milljarða króna lánum sem bankinn hafði veitt félaginu. Meðal eigna félagsins má nefna hluti í Avion Group og Icelandic Group.

Á haustmánuðum 2006 var stærstur hluti Grettis í eigu Sunds ehf. en eigendur þess voru Jón Kristjánsson, Gabríela Kristjánsdóttir og Gunnþórunn Jónsdóttir. Landsbankinn átti ríflega þriðjungshlut og Ópera Fjárfestingar ehf., í jafnri eigu Björgólfs Guðmundssonar og Novator ehf., átti 15,56%.