Framkvæmdum við Fríkirkjuveg 11 mun að líkindum ljúka í haust og þá er ráðgert að opna húsið almenningi. Ekki liggur þó enn fyllilega fyrir með hvaða hætti að sögn Ragnhildar Sverrisdóttur, upplýsingafulltrúa Novator. „Þetta er alveg á lokametrunum. Núna eru vangaveltur um nýtingu,“ segir hún.

Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, keypti húsið af Reykjavíkurborg á vormánuðum árið 2008 fyrir 650 milljónir króna. Þegar framkvæmdir hófust var gefið út að búist væri við að kostnaður við endurbætur á húsinu myndi nema 400 milljónum króna. Samkvæmt ársreikningi Novator F11 fyrir árið 2017 var kostnaðurinn kominn í 1,7 milljarða um síðustu áramót. Með kaupverðinu er kostnaður Novator við Fríkirkjuveg því kominn í 2,35 milljarða króna og þar sem framkvæmdir standa enn yfir á hann vafalaust eftir að aukast eitthvað.

„Þetta var ekki ókeypis,“ segir Ragnhildur. „Það var lögð mikil áhersla á að vanda mjög til verka þarna. Það eru nokkur handtök eftir. Húsið er búið að vera þrjú ár í endurgerð þannig að það liggur ekkert á að stökkva til á nokkrum vikum að skipuleggja framhaldið,” segir Ragnhildur.

Fríkirkjuvegur 11
Fríkirkjuvegur 11
© Eva Björk Ægisdóttir (Eva Björk )

Reist fyrir 110 árum
Þegar Novator keypti húsið var gert ráð fyrir að það myndi hýsa fundarsali og safn um ævi Thors Jensen, langafa Björgólfs Thors.

„Það er búið að leggja mikla vinnu í að setja þarna upp ljósmyndir sem lýsa sem best lífi Thors Jensen,“ segir Ragnhildur.

Íbúðarrými sem er á efstu hæð hússins er hugsað fyrir Björgólf Thor og fjölskyldu.

Thor Jensen lét byggja Fríkirkjuveg á árunum 1907-1908 og bjó þar fram til ársins 1937. Árið 1942 seldi Thor húsið til Góðtemplarareglunnar. Reykjavíkurborg eignaðist það svo árið 1963 og átti þar til Novator keypti það.

„Það er alveg gríðarleg vinna sem liggur í þessu húsi. Það var lögð mikil áhersla á að finna upprunalega málningu, að endurgera allt eins og hægt var. Þess vegna tók þetta svo langan tíma, vegna þess að handtökin voru svo mörg,“ segir Ragnhildur.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . Aðrir geta skráð sig í áskrift hér .