*

fimmtudagur, 5. desember 2019
Innlent 11. september 2017 11:42

24% skólpsins ekkert hreinsað

Umhverfisstofnun hefur gefið út skýrslu um stöðu frárennslismála.

Ritstjórn
Starfsmenn við viðgerðir á neyðarlokunni sem hleypti frárennsli út í sjóinn við Faxaskjól í rúmar fimm vikur.
Aðsend mynd

Árið 2014 var 68% skólps frá þéttbýlum hreinsað með eins þreps hreinsun, 2% með tveggja þrepa, og 1% með frekari hreinsun en tveggja þrepa. Aftur á móti var 24% skólpsins ekkert hreinsað og ekki er vitað til þess hvernig 5% var hreinsað eða hvort það hefði yfirleitt fengið nokkra hreinsun. Þetta er meðal þess sem kemur fram í stöðuskýrslu Umhverfisstofnunar um frárennslismál.

Af því skólpi sem myndaðist í þéttbýli á landinu var 94% losað í sjó, 5% í ár og stöðuvötn og 1% í ármynni eða grunnvatn. Af því skólpi sem var talið hreinsað með eins þreps hreinsun var um 84% hreinsað í sameiginlegum hreinsistöðvum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við Ánanaust og Klettagarða. Um er að ræða tæplega 60% þess skólps sem verður til í landinu. Hreinsun skortir á öllum stærri fráveitum í þéttbýli á Vesturlandi, Vestfjörðum. Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra.

Í skýrslunni segir að skýra þurfi ábyrgðarskiptingu á milli sveitarfélaga sem rekstraraðila fráveitna, fyrirtækja, heimila í dreifbýli og eftirlitsaðila, með það að markmiði að byggja upp nægilega gott kerfi til að tryggja nauðsynlegan árangur í málaflokknum. Þá er lagt til að verði gerð heildstæð aðgerðaáætlun sem tekið er á tímasetningu og fjármögnun svo hægt sé að tryggja hreinsun frárennslis komist í gott horf. 

Stikkorð: skýrsla umhverfisstofnun Skólp