„Við byrjuðum á þessu árið 2005 og þetta verður því í fjórða skiptið sem leiðin er farin með þessum hætti,“ segir Ragnar Sverrisson, einn upphafsmanna Glerárdalshringsins, einhverra erfiðustu skipulögðu fjallgöngu á Íslandi.

„Félagi minn, Þorvaldur Þórsson, benti mér á eitt sinn þegar við fórum saman á Hvannadalshnjúk að við Akueyringar ættum eitthvað flottasta fjallastæði á Íslandi, fjöllin 24 sem mynduðu Glerárdalshringinn. Í framhaldinu fékk ég nokkra unga menn með mér í lið við að skipuleggja fyrstu Glerárdalsgönguna. Við vorum auðvitað taldir svolítið klikkaðir að ætla okkur að ganga allan hringinn á 24 tímum og takast á við hæðarhækkun sem er 4000 metrar, eða tvisvar sinnum upp á Hvannadalshnjúk. Engu að síður fengum við 25 manns með okkur í fyrstu gönguna og þar af kláruðu 17 allan hringinn,“ segir Ragnar.

Glerárdalshringurinn hefur verið genginn árlega síðan 2005 og fjöldi göngugarpanna eykst frá ári til árs. Í fyrra tóku 75 manns þátt í göngunni og Ragnar býst við yfir 100 manns í ár. En þarf fólk ekki að vera í hörkuformi fyrir þessa leið? „Jú, það er nokkuð á hreinu að til að fara allan hringinn þarf fólk að vera nokkuð vel á sig komið og vera vant fjallamennsku.“

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í sérblaði um Norðurland sem fylgir með Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .