*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 23. febrúar 2020 11:03

24 umsagnir um áfengisfrumvarp

Frumvarpið gerir innlendum vefverslunum heimilt að selja áfengi beint til neytenda.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Alls bárust 24 umsagnir hafa borist um frumvarpsdrög dómsmálaráðherra um breytingar á áfengislöggjöfinni sem gerir innlendum vefverslunum heimilt að selja áfengi beint til neytenda. Umsagnarfrestur rann út á fimmtudag.

Í drögunum segir að unnið verði áfram að breytingum sem heimila áfengisframleiðendum að selja eigin brugg á framleiðslustað. Hingað til hafa íslenskir neytendur getað pantað áfengi erlendis frá og fengið það sent heim að dyrum en slíkt hefur ekki verið heimilt innanlands.

Breytingin mun heimila sendingar á áfengi heim að dyrum eða sækja það á starfsstöð leyfishafans. Aðeins var gefinn viku frestur til umsagnar og settu Samtök iðnaðarins út á það enda kveður samþykkt ríkisstjórnarinnar um samráð á um tvöfaldan þann frest. 

Sjá einnig: Ekki fyrir gubbandi slagsmálahunda

„Með þeirri breytingu sem nú er boðuð er að mati SA verið að stíga þarft en varfærið skref í átt að auknu frjálsræði í sölu áfengis á Íslandi. Engin ástæða er til þess að haga þessum málum með öðrum hætti hér en í velflestum löndum Evrópu,“ segir í umsögn Samtaka atvinnulífsins. Embætti landlæknis leggst gegn málinu.

„Undanfarin ár hefur embættið ítrekað varað við og lagst gegn breytingum á því fyrirkomulagi sem er á sölu áfengis á Íslandi. Takmarkað aðgengi að áfengi, sem meðal annars felur í sér takmarkað aðgengi með einkasölu ríkisins á áfengi, er áhrifarík leið til að draga úr skaðlegum áhrifum vegna notkunar áfengis,“ segir embættið.

Nokkrar umsagnir hafa einnig borist frá innflytjendum á áfengi sem kvarta undan háttsemi ÁTVR. Einni slíkri umsögn hafa þegar verið gerð skil á vef Viðskiptablaðsins.