Bankar og fjármálafyrirtæki hafa nú afskrifað um 319 milljarða dala eða því sem nemur um 24.442 milljörðum íslenskra króna vegna undirmálslánakrísunnar sem staðið hefur yfir frá því í haust.

Bloomberg fréttaveitan greinir frá þessu í kjölfar fréttar um mögulegar afskriftir svissneska bankans UBS en hann kynnir  uppgjör sitt á morgun.

Bandaríski fjárfestingabankinn Citigroup hefur afskrifað mest félaga eða um 41 milljarð dala sem nemur um 3.100 milljörðum íslenskra króna.

Þar næst kemur UBS sem hefur afskrifað um 38 milljarða dali eða um 2.911 milljarða íslenskra króna síðustu 3 ársfjórðunga að sögn Bloomberg.

Þá hafa bankar og fjármálafyrirtæki sagt upp um 48.000 manns síðustu 10 mánuði. Þar af hefur um 12.000 manns verið sagt upp hjá Citigroup og rúmlega 5.000 manns hjá Merrill Lynch að því er Bloomberg greinir frá.