Ný Bónusverslun verður opnuð á Tjarnarvöllum í Hafnarfirði 26. nóvember næstkomandi. Í frétt á heimasíðu Bónus kemur fram að framkvæmdir ganga vel og nú er farið að huga að því að ráða það fólk sem upp á vantar. Óskað er eftir búðarfólki, kassafólki og starfsmanni í vörumóttöku. Bæði er óskað eftir fólki í hlutastörf og fullt starf. Jóhann Hólm, nú verslunarstjóri í Reykjanesbæ, verður verslunarstjóri í nýju versluninni. Þetta verður 24. verslun fyrirtækisins.

"Það er farið að þrengja verulega að okkur í versluninni að Helluhrauni og við urðum að bregðast við með einhverjum hætti. Þarna er að vaxa geysistórt hverfi og eftir opnunina getum við boðið Hafnfirðingum betri þjónustu og bætt aðgengi. Við hlökkum mikið til," segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus inni á heimasíðu félagsins.