Greiningarfyrirtækið IFS Greining gaf í síðustu viku út verðmat fyrir fasteignafélögin þrjú, Regin, Reiti og Eik og mælir með kaupum á öllum félögunum. IFS metur verðmatsgengi Reita á 88,7 krónur á hlut sem er um 5% yfir markaðsvirði félagsins en lækkar þó verðmat sitt um 4% frá síðasta mati. IFS metur gengi bréfa Regins á 27,3 krónur á hlut sem er um 24% yfir markaðsvirði þess og þá er verðmatsgengi Eikar 10,7 krónur á hlut sem er um 23% yfir gengi bréfanna við lokun markaða á miðvikudag.

Í öllum greiningunum er komið inn á að áætlaður samdráttur í hagkerfinu muni breyta aðstæðum í rekstrarumhverfi félaganna og auka óvissu í rekstri. Greiningarfyrirtækið bendir hins vegar á að lægra vaxtastig ætti að gera það að verkum að auknir möguleikar skapist til endurfjármögnunar á betri kjörum.