Heildarviðskipti með fasteignir námu rúmum 243 milljörðum króna á nýliðnu ári, samkvæmt tölum Fasteignaskrár. Um 8300 kaupsamningum var þinglýst. Meðalupphæð á hvern samning var um 29 milljónir króna.

Þetta er mun meira en árið áður en þá var veltan rúmlega 206 milljarðar, kaupsamningar 7.640 og meðalupphæð hvers samnings um 27 milljónir króna. Heildarvelta fasteignaviðskipta hefur því aukist um tæplega 18% frá árinu 2012 og kaupsamningum fjölgað um tæplega 9%.

Sé litið til höfuðborgarsvæðisins var heildarupphæð þinglýstra kaupsamninga um 191 milljarður króna, kaupsamningar um 5700 og meðalupphæð kaupsamings um 33,5 milljónir króna. Heildarupphæð þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2012 var  163,7 milljarðar króna og fjöldi kaupsamninga var rúmlega 5.330. Meðalupphæð samninga árið 2012 var um 30,7 milljón króna. Heildarvelta á höfuðborgarsvæðinu hefur því aukist um tæplega 17% og fjöldi kaupsamninga hefur aukist um tæplega 7%.