Landsbanki Íslands hagnaðist um 24,4 milljarða króna á fyrri helmingi ársins samkvæmt tilkynningu frá bankanum. Þar segir að þar af hafi 9 milljarðar verið vegna gengishagnaðar hlutabréfa í eigu Horns, dótturfélags bankans. Fyrirsjáanlegt sé að tap verði af hlutabréfaeign á yfirstandandi ársfjórðungi.

Þá er hagnaður af aflagðri starfsemi 4,7 milljarðar en þar ber hæst söluna á Vestia og Icelandic Group. Hagnaður af reglulegri starfsemi er 10,7 milljarðar sem má bera saman við 6,6 milljarða hagnað á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi er 10,8% en þegar litið er til allra þátta er arðsemin 24,9% á ársgrundvelli. Þá er eiginfjárhlutfall 22,4% en lágmark samkvæmt tilmælum FME er 16%.

Heildareignir eru 1.126 milljarðar og hafa vaxið um 45 milljarða frá áramótum. Eigið fé er 208 milljarðar en var 185 milljarðar um áramót.

Hreinar vaxtatekjur voru 16,8 milljarðar og jukust um 3,1 milljarð á milli ára.