Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur úthlutað 244 milljónum króna til hönnunar og framkvæmda á ferðamannastöðum víða um land. Þetta er í þriðja árið sem úthlutað er úr sjóðnum en 60 prósent af tekjum eru innheimt með gistináttaskatti.

Alls bárust 136 umsóknir frá opinberum- og einkaaðilum sem hafa umsjón með ferðamannastöðum víðsvegar um land. Heildarupphæð styrksumsókna var rúmar 848 milljónir.

Að þessu sinni hlaut Vatnajökulsþjóðgarður hæsta styrkinn eða 29,7 milljónir króna, vegna framkvæmda í Skaftafelli. Þar verður meðal annars byggt við núverandi aðstöðu en framkvæmdirnar hafa að markmiði að stótbæta þjónustu við ferðafólk.

Á meðal annarra verkefni sem hlutu styrk voru:

  • Þingeyjarsveit vegna endurbóta við Goðafoss - 15 milljónir.
  • Umhverfisstofnun fyrir salernisaðstöðu við Hverfjall í Mývatnssveit - 13,8 milljónir.
  • Vatnajökulsþjóðgarður vegna uppbyggingar við Langasjó -  13,3 milljónir.
  • Djúpavogshreppur vegna deiliskipulags o.fl. við Teigarhorn - 11,6 milljónir.
  • Umhverfisstofnun vegna framkvæmda við nýjan stiga við Gullfoss - 10,1 milljón.
  • Skaftárhreppur vegna áningarstaðar í Eldhrauni - 10 milljónir.
  • Minjastofnun Íslands vegna uppbyggingar á Stöng í Þjórsárdal - 10 milljónir.

Á þeim þremur árum sem sjóðurinn hefur verið starfandi hefur alls verið úthlutað 850 milljónum króna til rúmlega 200 verkefna.

Framkvæmdasjóðurinn var stofnaður með lögum frá Alþingi sumarið 2011. Markmið sjóðsins er að stuðlað að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt. Þá skal með fjármagni úr sjóðnum leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins. Einnig er sjóðnum ætlað að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði.