Heildarútgjöld til heilbrigðismála á Íslandi voru 137,5 milljarðar króna árið 2008, eða 9,4% af landsframleiðslu.

Þar af var hlutur hins opinbera 114 milljarðar króna en hlutur heimila 23,5 milljarðar, eða 17,1% af útgjöldunum.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands í morgun en þar hafa nú verið birtar bráðabirgðatölur Hagtíðinda úr efnisflokknum um fjármál hins opinbera.

Þar kemur fram að af heildarútgjöldum hins opinbera 2008 runnu 18,7% til heilbrigðismála.

Til fræðslumála var ráðstafað 119,6 milljörðum króna á árinu 2008, eða 8,2% af landsframleiðslu. Þar af var fjármögnun hins opinbera 109,2 milljarðar króna og hlutur heimilanna 10,4 milljarðar króna, eða 8,7%. Um 18% útgjalda hins opinbera runnu til fræðslumála.

Til almannatrygginga og velferðarmála ráðstafaði hið opinbera 136 milljörðum króna 2008, eða 9,3% af landsframleiðslu, og nam hækkunin milli ára 24,5 milljörðum króna.

Samtals ráðstafaði hið opinbera 359 milljörðum króna til þessara þriggja málaflokka eða 24,5% af landsframleiðslu og 58,9% af hreinum útgjöldum hins opinbera.