Hagnaður Rafmagnsveitna ríkisins var 247 milljónir króna á fyrri helmingi ársins samanborið við tap að fjárhæð 35 mkr. á sama tímabili á árinu 2004. Þessi munur skýrist af því að rekstrartekjur jukust nokkuð en rekstrargjöld lækkuðu á tímabilinu og auk þess voru fjármagnsliðir hagstæðari, en hrein fjármagnsgjöld á tímabilinu námu 56 mkr. á móti 73 mkr á sama tímabili 2004. Veltufé frá rekstri nemur 740 mkr sem er talsvert hærri tala en á fyrri hluta síðasta árs, en þá nam veltufé frá rekstri 493 mkr.

Ákveðið hefur verið að Rafmagnsveiturnar selji flutningsvirki sín til Landsnets hf. á árinu, í samræmi við raforkulög. Gert er ráð fyrir söluhagnaði af þeirri sölu.

Ljóst er að ýmsar fleiri breytingar standa fyrir dyrum hjá Rarik í nánustu framtíð. Áform eru uppi um að fyrirtækinu verði skipt eftir starfsemi í hlutafélag í einkaleyfisrekstri og hlutafélag/félög í samkeppnisrekstri. Þessi breyting gæti orðið um næstu áramót. Jafnframt standa yfir viðræður milli raforkufyrirtækja í eigu ríkisins um frekara samstarf í framtíðinni og hafa stjórnvöld lýst vilja til að sameina Rafmagnsveiturnar, Landsvirkjun og Orkubú Vestfjarða undir einni samstæðu.