Eimskipafélagið [ HFEIM ] tilkynnti í síðustu viku að það hefði afskrifað dótturfélag sitt Innovate með öllu fyrir um 74,1 milljónir evra eða um 8,8 milljarða króna.

Á afkomufundi Eimskipafélagsins í morgun kom fram að um 25% af þeirri fjárhæð væru fjármunir, sem Eimskipafélagið lagði því til með það fyrir augum að tryggja áframhaldandi rekstur Innovate. Meiri hluti þeirrar fjárhæðar rann til Innovate á síðustu mánuðum.

„Það er alltaf þannig, í samstæðu eins og Eimskip að móðurfélagið er stundum að hlaupa undir bagga með dótturfélögum í ákveðinn tíma og tryggja það að sé grundvöllur fyrir því að halda rekstri áfram,“ sagði Stefán Ágúst Magnússon fráfarandi aðstoðarforstjóri samstæðunnar á afkomufundinum.

Hann sagði að Eimskipafélagið hafi ekki farið varhluta af lausafjárkrísu bankanna og það hafi átt sinn þátt í að Innovate hafi verið afskrifað.

Stefán Ágúst sagði að enn sé verið að skoða hvað fór úrskeiðis hjá Innovate. Verið er að skoða þær upplýsingar sem Eimskipafélagið fékk í hendur við kaupin. Og hvernig félagið þróaðist, sem leiddi til þess að það þurfti að afskrifa það með öllu.

Tap Eimskipafélagsins á öðrum fjórðungi reikningsársins nam 101 milljón evra en tapið var 10 milljónir evra á sama fjórðungi í fyrra, samkvæmt afkomutilkynningu félagsins. Afskriftin á Innovate skýrir tapið að mestu – auk hárra fjármagnsliða.

Án tillits til afskriftar Innovate, sem tilkynnt var um á dögunum, nam tap félagsins af áframhaldandi rekstri 33 milljónum evra. Afkoman er undir meðalspá greiningardeildanna sem hljóðaði upp á 20 milljóna evra tap á fjórðungnum.