Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur sent frá sér drög að reglugerð sem myndi afnema forgang yngri en 25 ára í framhaldsskóla. Einnig myndi reglugerðarbreytingin taka út að framhaldsskólar geti horft á niðurstöður samræmdra könnunarprófa við val á nemendum.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra horfir til breytinganna í ljósi betri fjármögnunar framhaldsskólastigsins.
„Ég er þeirrar skoðunar að einfalda eigi regluverk ef ekki er þörf fyrir það. Þessi aðgerð er skref í þá átt,“ segir Lilja á vef stjórnarráðsins.

„Ég vil afnema hina svo kölluðu 25 ára „reglu“ við innritun nemenda í framhaldsskóla. Mennta- og menningarmálaráðuneytinu hafa ekki borist umkvartanir vegna synjunar um skólavist sökum aldurs og líkur á að það reyni á slíkt eru hverfandi.“  Drögin að breyttri reglugerð er komin í opið samráð á vef Samráðsgáttarinnar , en í henni er mælt með að tvær setningar falli út úr núverandi reglugerð.

Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla, nr. 1150/2008, ásamt síðari breytingum:

1. gr.
Í stað orðanna „32. gr. a“ í 1. mgr. 2. gr. kemur:
33. gr. a
2. gr.
Orðin „og niðurstöður samræmdra könnunarprófa“ falla brott úr 4. mgr. 2. gr.
3. gr.
g-liður 3. mgr. 7. gr. fellur brott.
4. gr..
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 32. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla, öðlast þegar
gildi.