Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi mældist 2,5% í apríl 2022 en þetta kemur fram í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Til samanburðar var atvinnuleysið 8,6% í apríl 2021 og hefur atvinnuleysi því dregist saman um 6,1 prósentustig á milli ára.

Hlutfall atvinnulausra var nokkuð jafnt á milli kynja, 2,8% á meðal karla og 2,2% á meðal kvenna. Atvinnuleysi á meðal karla lækkaði um 4,1 prósentustig á milli ára en um 8,5 prósentustig á meðal kvenna.

Í tilkynningu á vef Hagstofu segir að árstíðarleiðrétt leitni atvinnuleysis hafi dregist saman um 3 prósentustig síðasta árið. Árstíðaleiðrétt leitni hlutfalls starfandi hafi aukist um 3,9 prósentustig síðasta árið.

Þá segir að samkvæmt mælingu án árstíðaleiðréttingar, sé áætlað að 211.000 (±7.700) einstaklingar á aldrinum 16-74 ára hafi verið á vinnumarkaði í apríl 2022 sem jafngildi 78,5% (±2,9) atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu hafi 203.100 (±6.200) verið starfandi og 7.900 (±2.700) atvinnulausir og í atvinnuleit.

Hlutfall starfandi af mannfjölda mældist þannig 75,6% (±3,0) og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli 3,7% (±1,3) og starfandi unnu að jafnaði 32,6 (±1,3) stundir á viku í apríl 2022. Fram kemur að samanburður við apríl 2021 sýni að atvinnuþátttaka hafi staðið nánast í stað á milli ára og hlutfall starfandi aukist um 5,7 prósentustig.