Tuttugu og fimm bankar hafa nú fallið í Bandaríkjunum á þessu ári, eftir að yfirvöld tóku yfir Haven Trust Bank of Duluth í Georgíu.

Yfirvöld hafa ekki lokað jafn mörgum bönkum á einu ári sl. 15 ár og fjöldinn í ár er meiri en samanlagður fjöldi síðustu sex ára. Þar af er fall Washington Mutual og IndyMac Bancorp meðal þeirra stærstu í sögunni, að sögn Bloomberg.

Unnið er að því í Bandaríkjunum að koma í veg fyrir frekara hrun banka með því að nota 250 milljarða dala úr björgunarsjóði banka til að auka eigið fé og útlánagetu.

Hagnaður banka dregst saman um 94% á milli ára

Þann 25. nóvember skilgreindi innlánaeftirlitið í Bandaríkjunum, FDIC, 171 banka sem vandamál á þriðja fjórðungi. Þetta er fjölgun um 46% frá öðrum fjórðungi. Hagnaður bankageirans var sagður hafa dregist saman um 94% frá fyrra ári, að sögn Bloomberg. FDIC hefur eftirlit með 8384 bankastofnunum.