Fjórðungur þeirra fasteigna sem Íbúðalánasjóður (ÍLS) hafði tekið yfir í lok apríl síðastliðins voru eignir á Suðurnesjunum. Um 6,6% landsmanna búa á því svæði. Alls var um að ræða 309 eignir. Af þeim stóðu 126 auðar en 114 voru í útleigu. Þetta kemur fram í áfangaskýrslu samstarfshóps á Suðurnesjum sem skilað var inn til Velferðarráðuneytisins í júní síðastliðnum. Athygli vekur að einungis 20% af þeim eignum sem ÍLS hafði tekið yfir í apríl voru á höfuðborgarsvæðinu. Því voru fleiri fasteignir í eigu sjóðsins á Suðurnesjunum en í öllum sveitarfélögunum sem tilheyra höfuðborgarsvæðinu. Um 55% þeirra fasteigna sem sjóðurinn hefur tekið yfir eru í öðrum landshlutum en á suðvesturhorninu.