Í haust mun iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggja fram frumvarp til breytingar á lögum um ársreikninga en drög að frumvarpinu voru birt opinberlega miðvikudaginn síðastliðinn. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra skiluðu aðeins um 25% fyrirtækja ársreikningi á réttum tíma í fyrra og er útlit fyrir að um 28% þeirra hafi skilað á réttum tíma í ár. Að sögn Skúla Jónssonar, sviðsstjóra skráarsviðs hjá embætti ríkisskattstjóra, eru breytingarnar til þess fallnar að bæta stöðu viðskiptalífsins og létta undir með því með skýrari lögum. Eitt meginmarkmið laganna er að innleiða nýja tilskipun frá ESB en að sögn Skúla er ekki gengið jafn langt í refsingum og hjá öðrum Norðurlandaþjóðum þar sem stjórnvaldssektir falla t.d. beint á stjórnarmenn.

„Skilin hafa batnað mjög mikið en eru langt frá því að vera nægilega góð,“ segir Skúli. „Það er þannig að til þess að viðskiptaumhverfið sé eðlilegt þá verður að vera til ársreikningaskrá þar sem menn geta aflað sér upplýsinga um þá aðila sem þeir ætla að eiga viðskipti við. Menn geta sloppið samt við hámarkssektina með því að hafa snarar hendur – því fyrr sem menn skila, því lægri verður sektin. Þetta er dálítil breyting frá því sem áður var því sektir voru ekki að koma fyrr en í jan- úar og upphæðin var lægri. Þessi heimild sem ráðherra hefur til að senda félög í skiptameðferð er færð til ársreikningaskrár ef vanskil vara lengur en átta mánuði. Þetta metum við sem gagnlegan þátt í því að sporna við kennitöluflakki. Þá er fyrr hægt að bregðast við og ef það eiga sér stað einhverjir gjafagerningar rétt fyrir gjaldþrot þá getur skiptastjóri fyrr gripið inn í og líklegra að það sé hægt að rifta slíkum gerningum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .