Utanríkisráðuneyti Frakklands segir að 25 þjóðir hafi sameinast um að mótmæla opinberlega hvalveiðum Íslendinga í atvinnuskyni og hvetja þjóðina til að láta af þeim, þar sem þau brjóti í bága við alþjóðahvalveiðibann, segir í frétt Reuters.

Þjóðir á listanum eru meðal annars: Bandaríkin, Þýskaland, Bretland, Ítalía, Suður-Afríka, Brasilía, Argentína og Nýja-Sjáland, en sumar þessara þjóða hafa þegar fordæmt hvalveiðarnar.

Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneytinu segir að Frakkland, ásamt 24 öðrum þjóðum, muni koma að máli við utanríkis- og sjávarútvegsráðuneyti Íslands í dag og lýsa yfir andstöðu sinni við hvalveiðum og biðja íslensk yfirvöld um að endurskoða stefnu sína.

Aðrar þjóðir á listanum eru: Chile, Spánn, Finnland, Írland, Ísrael, Mónakó, Holland, Svíþjóð, Lúxemborg, Austurríki, Tékkland og Slóvakía.

Evrópusambandið fordæmdi hvalveiðarnar fyrr í mánuðinum og hvatti íslensk stjórnvöld til að endurskoða ákvörðun sína.