Starfsmenn bílaframleiðandans Daimler, sem framleiðir Mercedes-Benz bifreiðar, í Þýskalandi eiga von á sérstökum „kórónuveiru bónus" sem nemur 1000 evrum eða tæplega 160 þúsund krónum. Með þessu vill félagið bæta starfsmönnum upp fyrir þau óþægindi sem grímuskylda á vinnustaðnum og heimavinna hefur haft í för með sér, að því er Reuters greinir frá.

„Vegna kórónuveirunnar hefur árið 2020 verið sérstaklega krefjandi ár. Á þessum ótrúlegu tímum gat fyrirtækið ávalt treyst á sveigjanleika og viljastyrk starfsmanna," er haft eftir Wilfried Porth, forstjóra Daimler, í tilkynningu vegna málsins.

Í tilkynningunni segir jafnframt að bónusinn muni ná til um 160 þúsund starfsmanna fyrirtækisins í Þýskalandi. Því mun fyrirtækið punga út ríflega 25 milljörðum króna í umræddar bónusgreiðslur til starfsmanna sinna.