Hlutabréf í tölvuleikjaframleiðandanum Electronic Arts hækkuðu um 8% í dag eftir að tilkynnt var að nýjasti leikur hans, Apex Legends, hefði náð 25 milljón spilurum aðeins viku eftir útgáfu hans.

Leikurinn er svokallaður „battle royale“ leikur, þar sem tiltekinn fjöldi spilara hefur leik, og síðan er barist til síðasta manns, sem stendur uppi sem sigurvegari, en meðal annarra leikja af sömu gerð – sem hafa sprottið upp eins og gorkúlur síðustu misseri – er hinn geysivinsæli Fortnite.

Aðeins þremur dögum eftir útgáfu hafði leikurinn náð 10 milljón skráðum spilurum – en sami vöxtur tók Fortnite tvær vikur – og um helgina eru „vel yfir“ tvær milljónir spilara sagðar hafa spilað hann samtímis.

Þar sem leikurinn er svokallaður fríspilunarleikur (e. free-to-play) er erfitt að bera vinsældirnar saman við sölutölur leikja sem spilarar þurfa að kaupa til að geta spilað, en Fortnite er einnig fríspilunarleikur svo samanburðurinn við hann á vel við.

Greiningaraðili sem frétt Reuters um málið vísar til hækkaði vænt gengi félagsins (e. target price) um 32%, úr 91 Bandaríkjadölum í 120.