Tilkynnt var um það í Lögbirtingablaðinu í dag að skiptum á búi Hróa veitinga hf. sem rak veitingastaðinn Hróa hött á Hringbraut 119, þar sem veitingastaðurinn XO er nú til húsa, sé lokið. Skiptunum var reyndar lokið 18. mars 2015 en veitingastaðurinn var úrskurðaður í gjaldþrotaskipti þann 26. nóvember árið 2014.

Engar eignir fengust upp í lýstar kröfur, auk áfallinna vaxta og kostnaðar eftir úrskurðardag, en í heildina námu þær 25.081.093 krónum. Guðrún Hulda Ólafsdóttir héraðsdómslögmaður var skiptastjóri, en samkvæmt fréttum frá sínum tíma var Ásgeir Ásgeirsson eigandi staðarins á Hringbraut.

Áður átti hann veitingastaðinn í gegnum félagið ÁÁ veitingar sem varð gjaldþrota árið 2012, en engar kröfur fengust heldur upp í nærri 78 milljóna króna kröfur í það félag.

Útibú Hróa hattar á Smiðjuvegi var í rekstri félagsins Salt og Gott ehf, sem fór í gjaldþrot 2013 en 59 milljónum var lýst í það bú. 1,3 milljónir króna fengust greiddar í bú þess félags en eigandinn var Gísli Ingason.

Það félag hét áður Hrói Höttur ehf, og þar áður H.H. ehf., en Sparisjóðurinn í Bolungarvík þurfti að afskrifa 250 milljónir króna vegna tapaðra lána til þess félags, sem hafði keypt vörumerkið Hróa hött og reksturinn á þremur stöðum árið 2007.

Gísli hafði áður verið stjórnarformaður Lackland sem hélt um rekstur staðarins á Smiðjuvegi áður en skiptum lauk á því félagið árið 2012. Ekkert fékkst upp í alls 223 milljóna kröfur sem lýst var í það bú.