Magn úrgangs sem barst Sorpu á fyrstu tveimur mánuðum ársins dróst saman um ríflega fjórðung samanborið við tvo fyrstu mánuði ársins 2019. Í mánuðunum stóð yfir verkfall sorphirðumanna og segir í frétt frá Sorpu að áhrif þess hafi mátt merkja í úrgangstölunum.

Áhugavert hafi þó verið að ekki hafi mælst aukning í sorpi sem skilað var í endurvinnslugáma meðan á verkfallinu stóð. Tæplega fimmtungi meira af rusli var sett í grenndargáma en samdráttur í móttökustöðinni í Gufunesi nam 17%. Þá virðist sem íbúar borgarinnar hafi dregið úr endurnýjun innanstokksmuna en fjórðungssamdráttur var í munum sem skilað var í nytjagáma Góða hirðisins.

„Það verður áhugavert að rýna í magntölur marsmánaðar og sjá hver áhrifin verða af aðgerðum vegna Covid-19,“ segir í frétt Sorpu.