Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, lýsti því yfir í gær að hugsanlega væri 250 milljarða Bandaríkjadala sjóður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ekki nægilega stór til að stemma stigu við því aðalþjóðlega fjármálakreppan breiðist enn frekar út.

Sem kunnugt er hefur fjölgað þeim löndum sem sóst hafa eftir neyðaraðstoð sjóðsins og vegna þessa hvatti Brown olíuútflutningsríki og önnur ríki sem sitja á digrum gjaldeyrisforða til að láta ekki sitt eftir liggja í baráttunni gegn ástandinu á fjármálamörkuðum.

Einnig var haft eftir Brown að bresk stjórnvöld íhuguðu að taka þátt í neyðaraðstoð til handa ungverska hagkerfinu, en búist er við að tilkynnt verði um neyðarlán IMF til stjórnvalda í Búdapest á næstu dögum.

Brown segir að bresk stjórnvöld útiloki ekki þátttöku í fleiri slíkum björgunarpökkum.