Hagnaður 1912-samstæðunnar á síðasta ári nam tæplega 250 milljónum króna og jókst hagnaðurinn um 33 milljónir frá fyrra ári. Innan samstæðunnar eru heildsölurnar Nathan & Olsen og Ekran, ásamt Emmessís. Þess ber þó að geta að 1912 keypti meirihluta í Emmess fyrr á þessu ári og er því afkoma ísframleiðandans ekki inni í ársreikningi samstæðunnar fyrir árið 2018.

Tekjur samstæðunnar námu rúmlega 8 milljörðum á síðasta ári og jukust þær um tæpan milljarð frá árinu þar á undan. Eignir námu tæplega 2,5 milljörðum króna og eigið fé 515 milljónum. Laun og launatengd gjöld 1912-samstæðunnar námu 936 milljónum króna og stóð fyrrnefndur kostnaður nánast í stað frá fyrra ári, en 96 starfsmenn störfuðu hjá samstæðunni í fyrra.

Ari Fenger er forstjóri 1912, en hann á fyrirtækið ásamt móður sinni, Kristínu Fenger Vermundsdóttur, og systur sinni, Björgu Fenger.