*

mánudagur, 1. mars 2021
Innlent 18. janúar 2021 19:07

250 milljónir í upplýsingafulltrúa

Launakostnaður vegna upplýsingafulltrúa sjö ráðuneyta og undirstofnana hækkaði um 9% á síðasta ári.

Ritstjórn
Þorsteinn Sæmundsson er þingmaður Miðflokksins, en það var hann sem lagði fyrirspurnina fyrir ráðuneytin um kostnað við upplýsingafulltrúa hjá þeim og undirstofnunum þeirra.
Haraldur Guðjónsson

Heildarlaun upplýsingafulltrúa í sjö ráðuneytum og undirstofnunum þeirra námu tæplega 249 milljónum króna á síðasta ári, eftir 9% hækkun kostnaðarins frá árinu 2019, samkvæmt svörum við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar þingmanns Miðflokksins á Alþingi.

Þá er gert ráð fyrir að laun séu framreiknuð í heilt ár hjá þeim ráðuneytum og stofnunum sem gáfu einungis upp laun fyrir hluta ársins, það er heilbrigðisráðuneytinu og Landspítalnum sem er undirstofnun þess og hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Það síðarnefnda er eina ráðuneytið sem tók ekki sérstaklega saman laun þeirra sem sjá um kynningarmál hjá undirstofnunum en sagði að af 56 undirstofnunum hefðu 47 svarað, þar af 44 að þær væru ekki með slíkan kostnað.

„Þrjár stofnanir svöruðu játandi en þær hafa fyrst og fremst kynningarstjóra sem sjá um samskipti og upplýsingamiðlun umfram það sem er á vefsíðum. Kostnaður vegna kynningarmála er að meðaltali 7 til 10 millj. kr. á ári hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og Menntamálastofnun en hjá Háskóla Íslands er starfsmaður sem svarar fyrirspurnum í hlutastarfi og er kostnaður vegna hans um 3,5 millj. kr. á ári,“ segir í svari ráðuneytisins.

Forsætisráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, félags- og barnamálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið hafa þegar svarað fyrirspurnum um kostnað við upplýsingafulltrúa- og samskiptastjóra í ráðuneytunum og undirstofnunum þeirra. Þar með hafa ekki borist svör frá umhverfisráðuneytinu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Í fyrirspurn sinni beindi Þorsteinn þeirri spurningu til ráðuneytanna hvort það væru upplýsingafulltrúar eða samskiptastjórar starfandi í þeim, hver árlegur heildarkostnaður síðustu tíu ára væri vegna starfa viðkomandi og svo spurði hann um það sama hjá undirstofnunum ráðuneytanna.

Svörin ná ekki lengra aftur en til ársins 2019 í tilviki félags- og barnamálaráðuneytisins sem þá var ásamt heilbrigðisráðuneytinu hluti af velferðarráðuneytinu og aftur fyrir 2018 í tilviki samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, sem þá tilheyrði innanríkisráðuneytinu ásamt málaflokkum dómsmálaráðuneytisins.

Dýrast hjá Seðlabankanum

Af einstökum ráðuneytum og undirstofnunum er liðurinn kostnaðarsamastur hjá Seðlabankanum eða tæplega 30,8 milljónir króna, en þar jókst hann um 67% frá árinu 2019 þegar kostnaðurinn nam rúmlega 18,1 milljón króna.

„Hjá Seðlabanka Íslands starfa tveir starfsmenn sem gegna hlutverki upplýsingafulltrúa/samskiptastjóra, þ.e. sinna ytri samskiptum bankans. Annar þeirra starfaði hjá Fjármálaeftirlitinu fram að sameiningu þess við Seðlabanka Íslands 1. janúar sl.,“ segir í svari forsætisráðuneytisins um kostnaðinn hjá stofnuninni.

Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar er næst kostnaðarsamastur, en á árinu 2020 námu laun og launatengd gjöld til hans tæplega 19,9 milljónum króna, en árið 2019 nam kostnaðurinn þar 19,5 milljónum króna. Það er þó nokkur lækkun frá árinu 2018 þegar liðurinn kostaði 22,6 milljónir og 2017 þegar kostnaðurinn nam 25,2 milljónum, eftir talsvert stökk frá 17,3 milljóna kostnaði 2016.

Næst þar á eftir kemur kostnaðurinn við upplýsingafulltrúa Landspítalans, en fyrstu 10 mánuði ársins 2020 nam hann tæplega 15,9 milljónum króna sem framreiknað miðað við sama kostnað á mánuði nemur rúmlega 19 milljónum fyrir árið í heild.

Fjórði mesti kostnaðurinn hjá einstökum undirstofnunum og ráðuneytum við laun upplýsingafulltrúa eru hjá Tryggingastofnun, eða 18,4 milljónir króna, sem er 13% aukning frá árinu 2019 þegar hann var 16,3 milljónir króna. Hins vegar var það mikil lækkun frá árinu 2018 þegar kostnaðurinn nam rétt tæplega 25 milljónum króna, eftir stökk frá 17 milljónum árið 2017.

Af einstökum ráðuneytum var kostnaðurinn lægstur hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, eða 11,8 milljónir króna sem er 4% samdráttur frá árinu 2019 þegar hann nam 12,3 milljónum króna. Af öllum ráðuneytum og undirstofnunum var kostnaðurinn lægstur hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eða ríflega 10,6 milljónir króna.

Kostnaður við upplýsingafulltrúa ráðuneyta og undirstofnana þeirra árið 2020 (með framreiknun út árið þar sem við á):

 • Seðlabankinn - 30.778.839 krónur
 • Ríkisstjórnin - 19.897.902 krónur
 • Landspítalinn - 19.047.052 krónur
 • Tryggingastofnun - 18.418.657 krónur
 • Vegagerðin - 17.079.153 krónur
 • Samgöngustofa - 15.591.863 krónur
 • Félags- og barnamálaráðuneytið - 15.234.518 krónur
 • Mennta- og menningarmálaráðuneytið - 13.850.334 krónur 
 • Heilbrigðisráðuneytið - 13.825.458
 • Póst- og fjarskiptastofnun - 13.581.060 krónur
 • Útlendingastofnun - 13.462.524 krónur
 • Utanríkis - og þróunarsamvinnuráðuneytið - 12.288.400 krónur
 • Dómsmálaráðuneytið - 12.205.672 krónur
 • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið - 11.847.377
 • Landhelgisgæslan - 11.093.189 krónur
 • Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu - 10.642.911 krónur