Lægsta tilboð í byggingu Húss íslenskra fræða var tæpum 250 milljónum yfir kostnaðaráætlun Framkvæmdasýslu ríkisins. Verkið er stærsta byggingarverkefni ríkisins í rúman áratug en ríkið hefur ekki boðið út húsbyggingu af þessari stærð frá því Flugstöð Leifs Eiríkssonar var stækkuð árið 2000.

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að þrír verktakar hafi gert tilboð í verkið. Það lægsta var frá Jáverki upp á tæpa 3,2 milljarða króna en það hæsta frá Ístaki upp á rúma 3,6 milljarða. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á rúma 2,9 milljarða króna.

Óskar Valdimarsson, forstjóri Framkvæmdasýslunnar, segir í samtali við blaðið að tilboðin hafi verið fá því miklar kröfur hafi verið gerðar til verktaka, m.a. um eigið fé.