Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið í máli sem Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga höfðaði vegna 250 þúsund króna málskostnaðar sem settur var á félagið vegna tilhæfulausrar kæru til kærunefndar jafnréttismála.

Þarf félagið því nú að greiða, auk 250 þúsund króna greiðslunnar, 750 þúsund krónur í málskostnað vegna, svo heildarupphæðin hefur fjórfaldast í milljón krónur. Upphaflegi málskostnaðurinn kom til í desember 2016, þegar félagið sendi inn stefnu til kærunefndarinnar vegna launamunar á milli fagstjóra lækninga og hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Vildi félagið meina að eftir skipulagsbreytingar þar sem störf yfirlækna og yfirhjúkrunarfræðinga voru lögð niður og teknar upp fagstjórastöðurnar á móti nýjum svæðisstjórastöðum sem í voru annað hvort læknar eða hjúkrunarfræðingar hefði myndast launamunur milli kynjanna.

Byggði félagið kæruna á sundurliðuðum upplýsingum um föst launakjör allra svæðisstjóra heilsugæslunnar, en þar kom fram að laun væntanlega karlkyns svæðisstjóra sem jafnframt voru læknar og þar með fagstjórar lækninga voru hærri en laun þeirra fimm kvenna sem voru svæðisstjórar en jafnframt hjúkrunarfræðingar og fagstjórar hjúkrunar.

Byggðist kæran á því að starf svæðisstjóra væri eitt og sama starfið og því um kynbundinn launamun að ræða í andstöðu við jafnréttislög, en samkvæmt úrskurði kærunefndarinnar frá því í októberlok 2018 var kröfu stefnanda hafnað.

Rökin voru þau að í ljósi upplýsinga um að fimm kvenkyns læknar sem einnig væru að starfa sem svæðisstjórar hjá heilsugæslunni nytu með sömu eða hærri kjara en karlarnir þá ætti kæran ekki við rök að styðja.

„Þá var talið að fyrirliggjandi launamunur milli læknanna og hjúkrunarfræðinganna styddist við málefnaleg rök vegna ólíkra klínískra starfa sem hjúkrunarfræðingarnir og læknarnir sinntu og á grundvelli mismunandi menntunar,“ segir jafnframt í dómsorðinu sem Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari ritar.

Var félagið í kjölfarið dæmt til að greiða 250 þúsund krónur í málskostnað en eins og áður segir er kostnaðurinn sem félagið þarf að greiða ríkinu vegna málsins nú komið í eina milljón króna. Ekki kemur fram hver kosnaðurinn við lögfræðinga félagsins vegna málanna er kominn í.