*

fimmtudagur, 4. mars 2021
Innlent 19. ágúst 2020 09:15

250 þúsund lágmarksverð í útboðinu

Áskriftarréttindi sem fylgja nýju hlutafé Icelandair gilda til tveggja ára en lausnarverð þeirra verður 1 króna að viðbættum 15% árlegum vöxtum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Almennir fjárfestar þurfa að greiða að lágmarki 250 þúsund krónur fyrir þátttöku í hlutafjárútboði Icelandair sem verður haldið 14.-15. september næstkomandi, ef samþykki fæst á hluthafafundi þann 9. september. Þetta kemur fram í kynningu félagsins fyrir útboðið. 

Alls verða seldir nýjir hlutir fyrir 20 milljarða króna að nafnverði á genginu 1 króna á hlut en fjárfestum útboðsins verður skipt í tvo flokka. Í A flokki verða fjárfestar sem greiða að lágmarki 20 milljónir króna og verður 17 milljörðum úthlutað fyrir þann flokk. Í B flokki verða fjárfestar sem greiða á bilinu 250 þúsund til 20 milljónir króna en þremur milljörðum verður úthlutað síðari flokknum. 

Sjá einnig: Bjóða fjárfestum um 80% hlut í Icelandair

Komi til umframeftirspurnar mun stjórn félagsins hafa heimild til að auka hlutafé enn frekar um allt að 3 milljarða. Skyldi stjórnin nýta heimildina þá mun eftirspurn í útboðinu ráða för hvernig þeim hlutum verður dreift á fjárfestaflokkana tvo. 

Hverjum hluti sem fjárfestar kaupa í útboðinu mun fylgja áskriftarréttindi (e. warrant) en í því felst að fjárfestar geta keypt 25% hluti til viðbótar á tveggja ára tímabili. Lausnarverðið á áskriftarréttindunum verður 1 króna að viðbættum 15% árlegum vöxtum.