Yfir 200 sóttu um að sitja í stjórn fjármálafyrirtækja í kjölfar auglýsingar Bankasýslu ríkisins, en stofnunin fer með eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Stjórn Bankasýslu ríkisins skipar sérstaka valnefnd sem tilnefnir einstaklinga fyrir hönd ríkisins í stjórnir fjármálafyrirtækja.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, segir í samtali við Viðskiptablaðið að yfir 200 hafi sótt um frá birtingu auglýsingarinnar og auk þess hafi stofnunin verið með fólk á skrá. Hann segir að samtals séu þetta um 250 einstaklingar.

Jón Gunnar segir þó að það sé ekki alveg ljóst hversu marga Bankasýslan þurfi að tilnefna. „Það eru fimm aðalmenn sem fóru út úr Landsbankanum, það þarf að skipa í stað þeirra. Í Íslandsbanka eru sex af sjö stjórnarmönnum sem hafa ekki verið tilnefndir af Bankasýslunni.“ Jón Gunnar segir að þeir stjórnarmenn í Íslandsbanka sem hafa ekki verið tilnefndir þurfi að fara í gegnum sama tilnefningarferli og aðrir.

Bankasýslan þarf að skila tilnefningum til Landsbankans fimm dögum fyrir aðalfund, eða fyrir 9. apríl, og til Íslandsbanka fyrir 14. apríl.