Skeljungur hagnaðist um 255 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Um er að ræða 5,9% aukningu milli ára, en félagið hagnaðist um 241 milljón á sama tímabili í fyrra.

Hagnaður á hlut var þar með 0,12 krónur en var 0,10 krónur á sama tímabili í fyrra. Aukin sala í öllum flokkum eldsneytis hefur haft þessi hagnaðaraukandi áhrif þ.e. sala til bifreiða, skipa og flugvéla.

Framlegð Skeljungs nam 1.660 milljónum króna sem er 0,6% betri framlegð en á sama tímabili í fyrra.

EBITDA hagnaður nam 627 milljónum króna, sem er þá 6,2% aukning milli ára.

Uppreiknuð arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli var 14,8% samanborið við 13,3% yfir sama tímabil árið 2016.

Eigið fé þann 31 mars nam rúmlega 7,4 milljörðum króna og er félagið með eiginfjárhlutfall upp á 37,8% í ársfjóðungslok.

Stjórnendur félagsins telja áfram að hagfelld skilyrði verði á mörkuðum félagsins miðað við spár sem gera ráð fyrir hagvexti og fjölgun ferðamanna. Skeljungur gerir til að mynda ráð fyrir stöðugu gengi gjaldmiðla og stöðugu olíuverði.

Spáð EBITDA ársins er samkvæmt áætlunum á bilinu 2.400 til 2.700 milljón krónur og mun félagið líklegast fjárfesta á bilinu 750 til 850 milljón krónur.