Skiptalok hafa farið fram í þrotabúinu Behrens fyrirtækjaráðgjöf ehf. Lýstar kröfur í búið námu rúmlega 256 milljónum króna en litlar sem engar eignir fundust í búinu samkvæmt skiptastjóra. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 26. október 2011. Fyrirtækið var í eigu Sparisjóðabanka Íslands en bankinn hafði keypt félagið af þeim Sigurði Smára Gylfasyni og Aðalsteini Jóhannssyni í október 2007. Þeir Sigurður og Aðalsteinn hófu störf á sama tíma hjá fyrirtækjaráðgjöf bankans.

Þegar félagið var keypt af þeim Sigurði og Gylfa störfuðu tólf manns hjá því á þremur stöðum í heiminum. Starfstöðvar voru í Riga í Lettlandi og Vilnius í Litháen til viðbótar við Reykjavík. Fjárfestingin var stór liður í því sem átti að vera útrás Sparisjóðabankans, eða Icebank eins og hann var kallaður á þeim tíma sem kaupin voru gerð. Finnur Sveinbjörnsson starfaði þá sem bankastjóri Icebank.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.