Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur staðfest tillögur Orkuráðs um styrki úr Orkusjóði til rannsóknar- og kynningarverkefna fyrir árið 2013.

Veittir verða 15 styrkir að upphæð 25,7 milljónir króna en alls bárust 46 umsóknir um samtals 120,3 milljónir króna. Styrkirnir eru veittir árlega til verkefna sem beinast að nýtingu innlendra orkugjafa og hagkvæmri orkunotkun.

Stærsti styrkurinn nú fer til verkefnis um notkun á endurnýjanlegri orku um borð í skipum eða 4,0 milljónir króna. Verkefni um gerð hugbúnaðar til notkunar við hönnun á orkusparandi toghlerum hlýtur litlu minni styrk. Meðal annarra verkefna sem hljóta styrki má nefna framleiðslu á eldsneyti með hitakærum örverum og með gösun lífræns hráefnis. Þessi verkefni falla vel að hlutverki rannsóknarstyrkja Orkusjóðs, að stuðla að minni notkun jarðefnaeldsneytis.