258 nemendur voru brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík við hátíðlega athöfn í Hörpu á laugardaginn, 2. febrúar. 182 nemendur voru brautskráðir úr grunnnámi, 72 úr meistaranámi og fjórir úr doktorsnámi. HR greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Frá tækni- og verkfræðideild luku 70 nemendur grunnnámi, 10 meistaranámi og þrír doktorsnámi. 84 nemendur útskrifuðust úr tölvunarfræðideild, þar af 78 úr grunnnámi og sex með meistaragráðu. Viðskiptadeild útskrifaði 25 nemendur úr grunnámi, 45 úr meistaranámi og einn doktor. Lagadeild útskrifaði 20 nemendur, þar af níu úr grunnnámi og 11 með meistaragráðu. 108 konur voru í útskriftarhópnum og 150 karlar.

Í ávarpi sínu til útskriftarnema sagði dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, m.a. að menntun fylgi ábyrgð og hann hvatti útskriftarnemendur til að nýta menntun sína til að tala máli þekkingar, gagna, staðreynda og laga og leggja þannig sitt af mörkum í baráttu við falsfréttir, upphrópanir og fásinnu. Hann vék einnig að yfirstandandi tæknibyltingu: „Sjálfvirkni, gervigreind og tengingar eru að umbylta störfum okkar, framleiðslu, þjónustu, viðskiptum og samfélaginu öllu. Þessi bylting er vissulega ógn fyrir þá sem ekki eru undir hana búnir en í þessum breytingum eru í raun gríðarleg tækifæri fyrir okkur sem búum á Íslandi. Það sem við þurfum er góð menntun sem mætir þörfum samfélagsins á hverjum tíma og öflug nýsköpun sem getur drifið verðmætasköpun í síbreytilegum heimi," sagði Ari meðal annars í ræðu sinni.

Védís Hervör Árnadóttir, samskipta- og miðlunarstjóri Viðskiptaráðs Íslands veitti verðlaun VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur. Þau hlutu að þessu sinni: Bryndís Gyða Michelsen, BA í lögfræði, Magnús Björn Sigurðsson, BSc í tölvunarfræði, Joseph Karlton Gallogly, MSc í markaðsfræði og Heiðar Snær Jónasson, BSc í rekstrarverkfræði.

Birgir Finnson, aðstoðarslökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu og MPM 2015 flutti hátíðarávarp við athöfnina og Erna Sigurðardóttir, ML í lögfræði, flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnemenda.