Árið 2011 varði ríkissjóður Íslands 2,0% og lífeyrissjóðirnir 0,6% af landsframleiðslu til greiðslu örorkulífeyris eða samtals 2,6% af landsframleiðslu.Svíar greiða 1,4% af landsframleiðslu í örorkulífeyri, Finnar 1,9% og Danmörk og Noregur 2,1-2,5%. Ísland greiðir því hærra en þessar þjóðir sem oftast er borið saman við. Þetta kemur fram á vef Samtaka atvinnulífsins sem lýsa yfir áhyggjum sínum af vinnumarkaði þar sem nánast engum fjármunum er varið í starfsendurhæfingu.

„Starfsendurhæfing er árangursrík leið til þess að koma í veg fyrir að fólk falli út af vinnumarkaði og að ná því aftur út á vinnumarkaðinn hafi það staðið utan hans um tíma. Nágrannaþjóðir okkar hafa gert sér grein fyrir þessu því ríkissjóðir Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs verja 0,2% af landsframleiðslu til starfsendurhæfingar en það samsvarar fjórum milljörðum íslenskra króna. Finnar og Hollendingar verja enn meiri fjármunum til þessarar fyrirbyggjandi starfsemi. Ekkert þeirra ríkja sem Íslendingar bera sig saman við verja hærra hlutfalli til greiðslu örorkulífeyris en Ísland.“

Samtökin óttast á á næsta áratug muni starfsfólki á vinnumarkaði fjölga aðeins um fjórðung af fjölgun undangengins áratugar þar sem árgangarnir sem koma inn eru litlu stærri en þeir sem fara út af honum vegna aldurs og mikillar örorkubyrðar.