Í febrúar flutti Icelandair 181 þúsund farþega í millilandaflugi sem er 26% aukning frá sama mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í nýjum flutningatölum frá Icelandair Group.

Framboðsaukning á milli ára í nam 23%. Sætanýting var 79,0% og jókst um 1,6 prósentustig og hefur aldrei verið hærri í febrúar. Farþegum fjölgaði á öllum mörkuðum en mest var aukningin á ferðamannamarkaðinum til Íslands eða 31%.

Aukning var á öllum sviðum samstæðu Icelandair Group í síðasta mánuði. Farþegum í innanlandsflugi og Grænlandsflugi fjölgaði um 8%, seldum blokktímum í leiguflugi fjölgaði um 15%, fraktflutningar jukust um 14% og seldum gistinóttum á hótelum samstæðunar fjölgaði um 16%. Herbergjanýting var 84% í hótelum Icelandair Group samanborið við 19,9% árið áður.