Írskir hagfræðingar vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið eftir að hagstofan þar í landi greindi frá því að hagvöxtur hefði verið 26 prósent árið 2015. Áður hafði Hagstofa Írlands gert ráð frir 7,8 prósenta hagvexti sem hefði þótt einstaklega gott.

„Ég ætla ekki að standa upp og segja að hagkerfið hafi vaxið um 26 prósent. Þeta er merkingarlaust. Við værum hlæjandi ef þessar tölur kæmu frá Kína,“ sagði Jim Power, írskur hagfræðingur.

Byggt á skattahagræðingu

Þessi ótrúlegi og fordæmalausi hagvöxtur varpar ákveðnu ljósi á gallana sem fylgja mælikvarðanum sem verg landsframleiðsla (VLF) er. Verg landsframleiðsla samanstendur af einkaneyslu, fjárfestingu, ríkisútgjöldum og hreinum útflutningi og á að varpa ljósi á efnhagslega velferð þjóða. Í tilfelli Írlands felst „hagvöxturinn“ að mestu leyti í þeirri staðreynd að fjölmörg bandarísk fyrirtæki hafa flutt starfsemi sína til landsins á pappírnum vegna skattahagræðis og telst það sem fjárfesting. Á Írlandi er 12,5 prósenta fyrirtækjaskattur sem er langt um lægra hlutfall en í Bandaríkjunum og þessi erlendu fyrirtæki voru talin með í þjóðhagsreikningum.

„Við erum mjög lítið hagkerfi og ef eignir aukast til muna gerist þetta,“ sagði Michael Connolly, starfsmaður hagstofunnar.

„Það sem gerist hér er að efnahagsreikningur fyrirtækis sem flytur sig til Írlands frá öðru landi telst sem hluti af fjármagnsstöðu okkar eða hreinni alþjóðlegri fjárfestingu. Þessi dramatíska aukning hefur aukið við framleiðslumöguleika hagkerfisins og hefur áhrif á þjóðhagsreikninga 2015 sem aukning í útflutningi og innflutningi. Atvinnuleysi hefur ekki tekið miklum breytingum.“

Telur raunverulegan hagvöxt vera 5,5%

Í tilkynningu frá írska fjármálaráðuneytinu kemur fram að peningar sem leita til Írlands vegna skattahagræðis blási upp stærð hagkerfisins og gefi ranga mynd af raunverulegri stöðu mála. Þó svo að fyrirtækin séu skráð á Írlandi sé meginþorri starfsemi þeirra oft erlendis.

Áðurnefndur Jim Power segist gera ráð fyrir því að raunverulegur hagvöxtur hafi verið um 5,5% en kveðst í raun eiga mjög erfitt með að átta sig á ástandi írsks efnahags. Hann segist ætla að skoða mælikvarða á borð við skatttekjur og breytingu á atvinnuleysi til að öðlast betri mynd af stöðu mála.

„Fyrir mér lítur þetta út fyrir að Írland sé að vaxa á raunhæfum en ekki dramatískum hraða. Það er svo mikið af færslum í gangi sem enginn skilur,“ bætir Power við.

Búálfahagfræði

Bandaríski lyfjarisinn Allergan, öryggisfyrirtækið Tyco og líftæknifyrirtækið Medtronic eru meðal þeirra sem hafa fært höfuðstöðvar sínar til Írlands með því að kaupa smærri írsk fyrirtæki og flytja starfsemi sína yfir til þeirra á pappírnum.

Paul Krugman, einn þekktasti og virtasti hagfræðingur heims, talar um „búálfahagfræði“ (e. leprechaun economics) og undrar sig á því að erlend fyrirtæki sem einungis starfa á Írlandi að nafninu til skuli tekin með í hagvaxtartölum. Bendir hann á greiningu írska blaðamannsins Eoin Burke-Kennedy hjá Irish Times sem segir:

„Þessi fyrirtæki búa einnig til samninga þannig að þeir fá þriðju aðila erlendis til að framleiða vörur fyrir sína hönd. Þessar útflutningsvörur, sem aldrei snerta írska grundu, eru taldar með í greiðslujöfnuði okkar. Það útskýrir 102 prósenta aukningu hreins útflutnings á síðasta ári.“

Nánar má lesa um málið á vefjum Bloomberg , Guardian og RTE .