Nasdaq Omx Iceland (Kauphöllin) afgreiddi 93 mál á síðasta ári. Þar af var 26 málum vísað til Fjármálaeftirlitsins (FME) til frekari skoðunar.

Til viðbótar voru 11 mál enn í vinnslu í árslok. Nasdaq Omx Nordic gaf í dag út yfirlit eftirlitsmála árið 2008, fyrir kauphallir sínar í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, Helsinki og á Íslandi segir í tilkynningu.

Af málunum 93 afgreiddi Kauphöllin 56 mál vegna gruns um brot á reglum um upplýsingagjöf. Málin voru afgreidd með mismunandi hætti; með athugasemdum (39), óopinberri áminningu (8), opinberri áminningu (3) og févíti (3). Þá voru 3 mál áframsend til FME.

Í tilkynningunni kemur fram að 26 mál sem lúta að viðskiptum með verðbréf voru afgreidd. Af þeim voru 3 mál afgreidd með athugasemdum og 23 mál áframsend til FME til frekari skoðunar. Um var að ræða mál vegna gruns um markaðsmisnotkun (11), gruns um ólögleg innherjaviðskipti eða brot á reglum um birtingu innherjaupplýsinga (8), gruns um brot á reglum um hagsmunaárekstur kauphallaraðila og viðskiptavinar (2), og mál er varða bestu framkvæmd viðskipta.

Ellefu mál voru afgreidd án athugasemda.