Kjarval ehf. sem heldur utan um rekstur vinnustofu Kjarval á efstu hæð við Austurstræti 12, hagnaðist um 26 milljónir króna á síðasta ári eftir 5,3 milljóna tap árið 2020. Vinnustofa Kjarval opnaði í upphafi árs 2019. Þar er rekin skrifstofu- og samkomurými sem fyrirtæki og einstaklingar kaupa aðgang að og nýta undir ráðstefnu- og fundarhöld, vinnu og afþreyingu.

Tekjur félagsins jukust um 80% á milli ára, úr 223 milljónum árið 2020 í 399 milljónir á síðasta ári. Rekstrarhagnaður hækkar úr 2,3 milljónum í 32,8 milljónir króna á milli ára. Laun og annar starfsmannakostnaður nam 159 milljónum króna en var 98 milljónir króna árið 2020. Stöðugildum fjölgaði úr 9 í 13,8 á milli ára.

Eignir félagsins um áramótin námu 135 milljónum króna en þar af eru fasteign, áhöld og innréttingar bókfærð á 93 milljónir króna. Skuldir námu 119 milljónum og eigið fé því jákvætt um 16 milljónir króna.

Stærsti hluthafi Kjarval er GO loyalty solutions ehf. með 60% hlut en það félag er til helminga í eigu Hálfdánar Steinþórssonar og Alexanders Arons Gylfasonar.