Skýrsla Ríkisendurskoðunar um málefni Lindarhvols er óafgreidd úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en skýrslan var gefin út í byrjun maí 2020, eða fyrir tæpum 20 mánuðum.

Nefndin ræddi skýrsluna 26 sinnum á síðasta kjörtímabili en þar af var minnst rætt níu sinnum um að fá aðgang að greinargerð Sigurður Þórðarson, setts ríkisendurskoðenda, frá árinu 2018, um Lindarhvol sem ekki var orðið við.

Lindarhvoll var stofnaður árið 2016 af fjármálaráðuneytinu og var falið að selja eigur sem ríkið fékk eftir samninga við slitabú föllnu bankanna. Sigurður var settur ríkisendurskoðandi vegna vanhæfis þáverandi ríkisendurskoðanda Sveins Arasonar, sem er bróðir þáverandi stjórnarformanns Lindarhvols. Þegar Skúli Eggert Þórðarson tók við af Sveini sem ríkisendurskoðandi árið 2018 lét Sigurður einnig af störfum sem settur ríkisendurskoðandi Lindarhvols. Sigurður skilaði þá greinargerð um Lindarhvol sem Ríkisendurskoðun gæti byggt á til að ljúka skýrslugerðinni. Þingnefndin hefur ekki fengið aðgang að þeirri greinargerð. Þá tók tæp tvö ár frá því Sigurður skilaði greinargerðinni þar til endanleg skýrsla Ríkisendurskoðunar um Lindarhvol var birt.

Sigurður sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bréf þar sem hann gerði margvíslegar athugasemdir við skýrslu Ríkisendurskoðunar um Lindarhvol og taldi Skúla Eggert vega að starfsheiðri sínum með fullyrðingu um að birting greinargerðar Sigurðar gæti bakað ríkinu skaðabótaskyldu.