Oddvitar stjórnarflokkanna leggja megin áherslu á að ráðast í afnám hafta og klára húsnæðismálin.

Gjaldeyrishöftin heyra undir Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Í þingmálaskrá hans er frumvarp til laga vegna útboðs á aflandskrónum en lagabreyting er forsenda þess að hægt verði að fara í útboð. Í þingmálaskránni kemur fram að áformað hafi verið að leggja frumvarpið fram 1. mars en það hefur ekki enn verið gert. Í viðtali í Morgunblaðinu í vikunni sagði Bjarni að frumvarpið væri í smíðum í ráðuneytinu og þegar það yrði lagt fram yrði væntanlega tilkynnt um dagsetningu á útboðinu og skilmála þess. Stefnt sé að því að útboðið fari fram á fyrri hluta ársins, sem þýðir að það mun í síðasta lagi verða haldið í júní. Hann sagði að útboðið væri upp á 230 milljarða króna og að það væri stór liður í afnámi hafta.

Beðið eftir húsnæðisfrumvörpum

Auk afnáms hafta verður að telja húsnæðismálin, sem eitt af þeim málum sem ný ríkisstjórn hyggst klára. Í aðdraganda kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí á síðasta ári gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um ýmsar aðgerðir til að liðka fyrir samningunum.   Húsnæðisfrumvörp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, eiga það sameiginlegt að vera hluti af þessum aðgerðum. Aðgerðir í húsnæðismálum hafa tafist fram úr hófi og hefur það sætt gagnrýni verkalýðsforystunnar. Frumvörp ráðherrans eru ein af forsendum kjarasamninganna og í raun sú eina sem ekki stenst skoðun því hinar tvær, aukinn kaupmáttur launa og samræmd launastefna á vinnumarkaði, standast skoðun.

Eins og staðan er núna þá eru þrjú frumvörp enn til umfjöllunar í velferðarnefnd en það eru frumvarp um almennar íbúðir, breytingu á húsaleigulögum og frumvarp um húsnæðisbætur. Frumvarp um húsnæðissamvinnufélög hefur verið afgreitt úr nefnd og bíður 3. umræðu.

Lækkun tryggingargjalds

Daginn eftir að viðtalið við Sigmund Davíð birtist í í Kastljósinu lagði fjármálaráðherra fram fjögur mál á Alþingi. Eitt þessara mála er frumvarp til laga um breytingu á ýmsum ákvæðum um skatta og gjöld. Þar er meðal annars kveðið á um að tryggingargjald verði lækkað úr 5,9% í 5,4%. Lækkun tryggingargjalds er annað mál sem snertir kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Eftir að svokallað Salek-samkomulags var undirritað í október á síðasta ári kölluðu Samtök atvinnulífsins eftir því að tryggingjaldið yrði lækkað og þannig komið til móts við fyrirtækin í landinu og kostnað þeirra vegna launahækkana, sem samið hefur verið um.

„Lækkun tryggingargjalds sem liggur fyrir þinginu í frumvarpsdrögum er enn eitt dæmið um mál sem við verðum að klára," sagði Bjarni á Alþingi þegar ný stjórn tók við.

Af þeim 260 málum sem bíða afgreiðslu eru 84 þingmannafrumvörp og 106 þingmannatillögur. Hægt er að glöggva sig betur á stöðunni með því að skoða töfluna hér að neðan.

Þingmál
Þingmál

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .