Greiðslustofa Vinnumálastofnunar greiddi í dag út eingreiðslur desemberuppbótar til atvinnulausra en greiddar voru út tæpar 260 milljónir til 13.555 einstaklinga.

Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar en atvinnuleitendur sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hafa staðfest atvinnuleit á tímabilinu 20. nóvember – 5. desember á þessu ári fá eingreiðslu samkvæmt nýsamþykktum lögum.

Full uppbót er 44.857 krónur en greiðsla hvers og eins reiknast í hlutfalli við rétt hans til atvinnuleysisbóta árið 2010. Tekið er mið af bótahlutfalli, fjölda mánaða á atvinnuleysisbótum á árinu, hlutastarfi og þátttöku í starfstengdum vinnumarkaðsúrræðum þegar við á.