Í ljósi nýrra talna er hugsanlegt að hagvöxtur verði minni á árinu 2014 en spár höfðu gert ráð fyrir. Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka.

Hagvöxtur á fyrri helmingi ársins var 0,6% , samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í gær. Greining Íslandsbanka hafði spáð 3,2% hagvexti á árinu og Seðlabankinn 3,4% og því þarf talsvert mikill vöxtur að eiga sér stað á seinni helmingi ársins ef spárnar eiga að ganga eftir.

Á fyrstu sex mánuðum ársins jókst fjárfesting um 7,8%. Greining Íslandsbanka bendir á að vöxtinn í fjárfestingum megi að miklu leyti rekja til mikils vaxtar í íbúðafjárfestingu sem jókst um 26,3% á tímabilinu. Hins vegar sé umhugsunarefni hversu hægur vöxtur hafi verið í atvinnuvegafjárfestingu, eða 3,8%.

Greiningardeildin telur að peningastefnunefnd Seðlabankans muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á vaxtaákvörðunarfundi þann 1. október næstkomandi. Nýju hagvaxtartölurnar breyti engu í þeim efnum.