Nokkrir eigendur hlutabréfa í Hval hf. hafa farið þess á leit við stjórn félagsins að bréf þeirra verði ógilt, þar sem þau séu týnd og tröllum gefin, og ný verði gefin út í staðinn. Þetta kemur fram í tveimur innköllunum í Lögbirtingablaðinu í dag.

Samanlagt nafnvirði bréfanna sem um ræðir er rúmlega 1,6 milljónir króna eða tæplega eitt prósent af útgefnum hlutum í Hvalnum. Virði hlutanna, sé miðað við mat dómkvadds matsmanns í máli þriggja hluthafa félagsins gegn því, þar sem krafist var innlausnar á hlutum þeirra, er rúmlega 266 milljónir króna.

Í auglýsingunum tveimur er handhafa bréfanna veittur þriggja mánaða frestur til að gefa sig fram við stjórn félagsins og lýsa rétti sínum yfir bréfunum. Gefi sig enginn fram innan frestsins falli öll réttindi samkvæmt bréfunum niður og ný verði gefin út í þeirra stað.