*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 19. janúar 2021 11:11

27% atvinnuleysi erlendra borgara

Atvinnuleysi jókst eilítið í desember, í 10,7%, en minna en reikna mátti með. Um 40% atvinnulausra erlendir ríkisborgarar.

Ritstjórn
epa

Í desember jókst atvinnuleysið um 0,1 prósentustig frá því í nóvember og fór almenna atvinnuleysið í 10,7%, en heildaratvinnuleysið, sem inniheldur þá sem eru á hlutabótum jókst að sama skapi í 12,1%.

Atvinnuleysið sem tengist hlutabótaleiðinni var óbreytt í 1,4% milli mánaða að því er Hagsjá Landsbankans hefur tekið saman upp úr tölum Vinnumálastofnunar. Atvinnuleysi erlendra ríkisborgara hér á landi er hins vegar 24%, og 27% að teknu tilliti til hlutabóta.

Þrátt fyrir þessa aukningu segir hagdeild bankans að aukningin í desember hafi þar með verið minni en reikna mátti með, en atvinnulausum hefur fjölgað í öllum atvinnugreinum milli desember 2019 og desember 2020, þó mest í ferðatengdri starfsemi.

Samkvæmt fréttum greiddi Vinnumálastofnun yfir 6 milljarða króna í atvinnuleysisbætur síðustu mánaðarmót, en þá tók gildi 3,6% hækkun bótanna á óskertar bætur, sem gilti jafnt yfir alla sama hversu lengi þeir hafa unnið, auk 2,5% tímabundinnar hækkunar á þessu ári.

Viðskiptablaðið hafði þó haft eftir Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra síðasta sumar að ekki væri hægt að hækka bæturnar vegna álagsins á atvinnulífið. Auk þess voru hlutabætur framlengdar fyrst út október en nú gilda þær út maí á þessu ári.

Fimmtungur farið af hlutabótum í fullt atvinnuleysi

Jafnframt virðist þó sem hlutabótakerfið hafi sannað gildi sitt, því einungis 20% þeirra sem fengu hlutabætur á síðasta ári hafa komið aftur inn á atvinnuleysisskrá. Þar eru nú í heildina 26.500 manns, þar af 21.400 atvinnulausir og 5.100 í minnkuðu starfshlutfalli, það er á hlutabótum.

Af þessum hópi voru 41%, eða 8.700 manns, erlendir ríkisborgarar, en hlutfall þeirra á atvinnuleysisskrá hefur verið í kringum 40% allt frá haustinu 2019, eða töluvert áður en kórónuveirufaraldurinn fór að láta á sér kræla hér á landi, en eftir að hægja fór á ferðaþjónustunni.

Auk ferðatengdrar þjónustu hefur jafnframt verið töluverð aukning í atvinnuleysi í menningartengdri þjónustu, en atvinnulausum hefur fjölgað mest meðal skrifstofufólks, sérmenntaðra og starfsmanna við ýmis þjónustustörf. Hins vegar var minnsta aukningin meðal starfsmanna í sjávarútvegi, verkafólks, iðnaðarmanna og við sölu- og afgreiðslustörf, og í upplýsingatækni.